Loftslagspílagrímar
  • Loftslagspílagrímar
    • Hvernig gerum við þetta
    • Skila kílómetrum
  • Handbók um umhverfisstarf
    • Umhverfisstefna og aðgerðaráætlun
    • Verkfæri fyrir kirkjur >
      • Hvað hafa kirkjur gert?
      • Græn skref Umhverfisstofnunar
      • Innkaup, neysla og sorp.
      • Kirkjukaffi og aðrar uppákomur
      • Hvenær og hvernig ætti að hafa náttúrutengda guðsþjónustu?
      • Ritningarstaðir tengdir náttúrunni
      • Bænir og blessunarorð
      • Ýmis handrit að athöfnum og guðsþjónustum
      • Fyrir barnastarfið
      • Fræðsluefni og hugmyndir
    • Guðfræði
  • Grænn söfnuður
    • Regnbogabæn á föstunni
    • Heimsmarkmiðin og kristin trú
    • Tímabil sköpunarverksins
Umhverfisstefna & Aðgerðaráætlun

HANDBÓK UM UMHVERFISSTARF:

Bænir og blessunarorð

Verkfæri fyrir kirkjur
Guðfræði
​

Að biðja er ekki það minnsta sem við getum gert.
Bænin býr til farveg.
​bænin tengir hug, hönd og hjarta.

​Hér má finna fjölbreyttar bænir, syndajátningar og blessunarorð sem tengjast náttúrunni og umgengni okkar um jörðina. 
Margar bænanna eru ætlaðar til víxllesturs við guðsþjónustu eða aðrar samkomur, þá stendur L fyrir lesari og A fyrir allir.

Grænar Bænir

Inngangsbæn
L: Guð, þú sem gefur líf öllu sem lifir.
Við þökkum þér fyrir lífið, að við getum skilið og upplifað gjafir þínar.
Við lofum þig fyrir fegurð Jarðarinnar, fyrir líf okkar og heilsu,
og fyrir allt sem lætur okkur upplifa að þú ert góð.
Hér frammi fyrir augliti þínu biðjum við um eyru til að heyra, tungu til að tala og hendur sem taka til verka, svo að við getum heyrt orð þín, lofað þig með þökk í hjarta, og í orði og verki vitnað um máttarverk þín, skapari okkar og frelsari.
Við biðjum í Jesú nafni
Allir: Amen
​(Fengið frá norsku þjóðkirkjunni

Bæn fyrir kirkjunni
L: Guð, vektu okkur
svo að við verndum jörðina sem þú elskar.
Af jörðinni gefur þú okkur vort daglega brauð,
fegurð til að njóta og stað sem við köllum heimili.
Gef kirkjunni kjark og skörungsskap
til að mótmæla ofbeldi gegn jörðinni,
til að andmæla lygum og afskiptaleysi,
til að lyfta upp sannleikanum
og til að boða réttláta framtíð
fyrir allt mannkyn.
Allir: Amen
(Eftir Rolf Erik Hanisch, norskan prest)

Gloria
Við lofum þig Drottinn alheimsins,
fyrir sköpunarverk þitt,
fyrir öll undur veraldar,
fyrir fegurð jarðar,
fyrir auðlindir plánetunnar.
Gef að við misnotum ekki gjafir þínar af sjálfselsku,
hjálpa okkur að nýta þær til að mæta þörfum alls fólks til dýrðar nafni þínu.
(Frá kaþólsku kirkjunni í Noregi

Bæn Loftslagspílgríma
Góði Guð, þú sem ert Skapari alls sem er, við biðjum þig: hjálpa okkur að sjá náungann og sköpunarverkið með þínum augum. Við höfum brugðist þér og hlutverkinu sem þú gafst okkur. Margir missa lifibrauð sitt vegna rányrkju okkar á auðlindum jarðar. Við vitum að þau sem eiga minnsta sök á loftslagsbreytingum eru þau sem upplifa mesta neyð. Hjálpa okkur að heyra hrópin sem þú heyrir, sjá neyðina sem þú sérð, og elska náungann eins og okkur sjálf.
 
Guð, þú sem hefur lofað okkur að þitt ríki muni koma til jarðar, send okkur Anda þinn og gef okkur kraft til nýsköpunar. Hjálpa okkur að deila voninni um réttlæti. Lít til okkar í náð og styrk alla sem vinna að réttlæti. Gef leiðtogum jarðar visku, vilja og kjark til að vernda jörðina fyrir komandi kynslóðir. Hjálpa okkur að sjá að allir geta haft áhrif og gef okkur styrk til að taka til verka.
Amen
(Úr gönguhefti fyrir Loftslagspílagríma)
​

Picture
Við erum hluti af vef jarðar
L: Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er,
heimurinn og þeir sem í honum búa,
því að hann grundvallaði hana á hafinu,
festi hana á vötnunum. (24. Davíðssálmur)
 
L: Allt sem að hreyfir við jörðinni
hreyfir við börnum jarðar.
Við vitum að jörðin tilheyrir ekki okkur.
Allir: Við tilheyrum vef jarðar
 
L: Við vitum að allt í heiminum er ofið saman.
Allir: líkt og blóðið sameinar fjölskyldur.
 
L: Við vitum að það sem við gerum vefnum.
Allir: það gerum við einnig sjálfum okkur.
(Byggt á ræðu eftir Seattle indíána höfðingja f.1780)

Picture

Haustbæn
Heilagi Guð. Þökk sé þér fyrir hrynjanda árstíðanna, fyrir sumarið sem senn er á enda og haustið, sem fljótlega gengur í garð. Þökk sé þér fyrir uppskeru sumarsins, ávöxt jarðar og iðju mannanna til sjávar og sveita. Þökk sé þér fyrir litbrigði og hljóma haustsins, fyrir fegurð litanna, fyrir söng farfuglanna og hörpuslátt stormsins.
Fyrir Jesú Krist Drottin vorn. Drottinn heyr vora bæn.

Bæn garðyrkjumanns
Leið okkur í dagrenningu að lífsins garði,
svo við megum reyta burt óþarfan
rífa óréttlætið upp með rótum
vökva hið visna
næra hið dofna
hreinsa burt eitruð fræ
og þegar kvölda tekur, hvílast og undrast í garði Guðs.
(Fengið frá Meþódista kirkjunni í Noregi)

Þakkarbæn
L: Fyrir jörðina, hafið og himinn, einingu þeirra og litadýrð
A: þökkum við þér Guð
L: Fyrir lífið og orkuna sem streymir í gegnum heiminn
A: þökkum við þér Guð
L: Fyrir dýrð þína sem lýsir upp tíma og rúm
A: þökkum við þér Guð
L: Fyrir undur náttúrunnar, öll heimsins dýr, blómin sem springa út, söng fuglanna og viljastyrk býflugunnar
A: þökkum við þér Guð
L: Fyrir Hann sem þú sendir til að reisa okkur upp þegar við höfðum fallið frá öllu því góða sem þú skapaðir
A: þökkum við þér Guð
L: Fyrir frið Heilags Anda sem lægt getur öldur og kyrrað vind
A: þökkum við þér Guð
L: Fyrir að við fáum að vera dropi í hafi eilífðarinnar
A: þökkum við þér Guð
L: Fyrir að þú hafir gefið okkur tilgang og umvafið okkur kærleika þínum
A: þökkum við þér Guð
(Fengið frá norsku kirkjunni, byggt á keltneskri bæn)

Syndajátningar og miskunnarbænir ​

Bæn um fyrirgefning vegna ráðsmennsku okkar
Það fer vel á því að láta fimm aðila lesa bænirnar
 
L: Fyrirgef okkur, Guð,
Þátttöku okkar í eyðingu náttúrunnar,
Löngun okkar eftir gróða án tillits til lífsins.
 
L: Fyrirgef okkur,Guð
Ofbeldið við höfum beitt jörðina
Þögn okkar gagnvart skógeyðingu og mengun hafs og vatna.
​
L: Fyrirgef okkur, Guð
Þegar við truflum gang náttúrunnar með því að útrýma dýrategundum
Þegar við ákveðum að eyða því sem við sjáum ekki að gagnist okkur.
 
L: Fyrirgef okkur, Guð
Brennandi þrá okkar eftir neyslu, án þess að við hugum að komandi kynslóðum
Áherslu okkar á að lifa aðeins í núinu, án þess að huga að morgundeginum.
 
L: Fyrirgef okkur, Guð
Hrokann sem við sýnum með því að telja okkur miðpunkt alheimsins
Sinnuleysið gagnvart því að vilja standa vörð um sköpun þína.
 
Allir: Kenndu okkur með náð þinni
Að elska alla sköpun þína, systur okkar og bræður
og að standa vörð um lífið í öllum sínum birtingarmyndum.
(Eftir brasilíska prestinn José Carlos de Souza)

Picture
Syndajátning:
Guð, þú sem elskar okkur án fyrirvara,
Þú sem er uppspretta lífs og samfélags,
Frammi fyrir þér viðurkennum við þátttöku okkar í því sem eyðileggur lífið.
Þegar ísinn bráðnar, þegar loftslagið breytist, þegar vatn, loft og jörð mengast:
Jesús Kristur, fyrirgef okkur syndir okkar.
(Eftir norska prestinn Sindre Eide)

Kyrie-litanía
L: Almáttugi Guð, Skapari og Lífgjafi
við erum hluti af þínu fagra
og viðkvæma sköpunarverki.
Við fengum það hlutverk að vernda,
næra og virða það.
Við höfum brugðist hlutverki okkar.
Því hrópum við:
A: Kyrie eleison (sungið eða sagt)
 
L: Jörðin er móðir okkar,
upphaf okkar og uppspretta næringar.
Hvert fræ í djúpi jarðar
hreyfist og springur út af sköpunargleði þinni.
Þegar jörðin er lögð í eyði og eitruð
af græðgi og skammtíma hagsmunum,
svíkjum við upphaf okkar og vilja þinn.
Því hrópum við:
A: Kyrie eleison (sungið eða sagt)
 
L: Jörðin er full af vatni.
Hafið er legvatn lífsins.
Allt líf þarfnast vatns til að lifa:
manneskjur, plöntur, fiskar og dýr.
Þegar vatnið mengast
kemur það niður á okkur og framtíð okkar.
Því hrópum við:
A: Kyrie eleison (sungið eða sagt)
 
L: Loftið er andardráttur lífsins,
það fyllir lungu jarðar.
Hver andardráttur er áminning
um sköpunarmátt þinn.
Þegar loftið mengast,
sköðum við lungu jarðar
og sköpunarverkið veikist.
Því hrópum við:
A: Kyrie eleison (sungið eða sagt)
(Frá ECEN, European Christian Environmental Network)
​

Blessunarorð og kveðja

Blessun frá Afríku
L: Drottinn blessi þig
og gefi þér blessun sléttunnar aftur og aftur:
kyrrð,
ferskt vatn,
víðan sjóndeildarhring,
opinn himinn
og stjörnur sem vísa þér veg
í myrkri næturinnar.
 
Megi jörðin undir þér
fá fætur þína til að dansa,
gera hendur þínar sterkar,
fylla eyru þín af tónum
og nefið af sætum ilmi.
 
Megi himinninn yfir þér
fylla sál þína af lotningu,
gefa augum þínum birtu,
sá gleði í hjarta þitt
og leggja þér lofsöng í munn.

Allir:
Blessa okkur, Guð skapari
Blessa okkur, Guð frelsari
Blessa okkur, Guð lífsgjafi
(Byggt á afrískum sálmi)
​

Kveðja
L: Förum héðan út í heiminn
með sátt í hjarta
kærleika í huga
og hendur viljugar til verka.
Förum í friði.
Allir: Í Jesú nafni. Amen
(Fengið frá sænsku þjóðkirkjunni)

Picture
Kveðja
L: Ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar. (2. Tim 1.7)
Farið í mætti Guðs. Farið í friði. Þjónið Drottni með gleði.

Fransiskanablessun:
L: Guð blessi þig með óþægindum yfir ódýrum svörum, hálfsannleik og yfirborðslegum samskiptum svo að þú megir lifa í djúpum hjarta þíns.

Guð blessi þig með reiði yfir óréttlætinu yfir kúguninni og yfir misnotkun fólks svo að þú beitir þér fyrir réttlæti, frelsi og friði.

Guð blessi þig með tárum sem úthelt er vegna þeirra sem þjást vegna sársauka, höfnunar, hungurs og stríðsátaka, svo að þú réttir fram hendur þínar til að hugga þau og umbreyta sársauka þeirra í gleði.

og Guð gefi þér næga heimsku svo að þú trúir því að þú getir breytt einhverju í þessum heimi og sért fær um að gera það sem aðrir segja að sé ómögulegt.
Megi blessun Guðs, Skaparans, Frelsarans og Lífsgjafans vera með þér nú og um alla tíð

Lokabæn
L: Biðjum:
Andi sköpunarinnar,
Þú sem hreyfir haf og fljót, gef okkur af vatni lífsins.
Andi sköpunarinnar,
Þú sem flæðir í gegnum skóga jarðar, sáðu í okkur fræjum nýs lífs.
Andi sköpunarinnar
Þú sem brennur í hjörtum fólks þíns, gef að hjarta okkar megi endurnýjast.
 
Allir: Heilagur andi
Þú sem komst til fyrstu lærisveinanna með vindi himins og eldtungum, komdu til okkar í dag og fylltu okkur af kærleika þínum og mætti.
 
L: Förum og látum líf okkar bera trúnni vitnisburð.
Leitum að gæsku Guðs í hinu minnsta og ómerkilegasta.
Sjáum nærveru Krists í samferðarfólki okkar
og látum Andann leiða okkur eftir veginum sem færir sannan frið.
Allir: Amen.
(Fengið frá Grønn Kirke í Noregi)
​

Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.
​- Fyrsta Jóhannesarbréf 3,18

Skoða næst:

Til baka í efnisyfirlit
​HVENÆR OG HVERNIG ÆTTI AÐ HAFA NÁTTÚRUTENGDA GUÐSÞJÓNUSTU?
Ritningarstaðir tengdir náttúrunni
Ýmis handrit að athöfnum og guðsþjónustum
Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Loftslagspílagrímar
    • Hvernig gerum við þetta
    • Skila kílómetrum
  • Handbók um umhverfisstarf
    • Umhverfisstefna og aðgerðaráætlun
    • Verkfæri fyrir kirkjur >
      • Hvað hafa kirkjur gert?
      • Græn skref Umhverfisstofnunar
      • Innkaup, neysla og sorp.
      • Kirkjukaffi og aðrar uppákomur
      • Hvenær og hvernig ætti að hafa náttúrutengda guðsþjónustu?
      • Ritningarstaðir tengdir náttúrunni
      • Bænir og blessunarorð
      • Ýmis handrit að athöfnum og guðsþjónustum
      • Fyrir barnastarfið
      • Fræðsluefni og hugmyndir
    • Guðfræði
  • Grænn söfnuður
    • Regnbogabæn á föstunni
    • Heimsmarkmiðin og kristin trú
    • Tímabil sköpunarverksins