HANDBÓK UM UMHVERFISSTARF:Hvenær og hvernig ætti að hafa náttúrutengda guðsþjónustu? |
Minnst einu sinni á ári ætti hver söfnuður að messa undir berum himni. |
Hér er að finna hagnýtar upplýsingar fyrir skipulagningu útiguðsþjónustu eða þemaguðsþjónustu þar sem náttúran er í lykilhlutverki. Einnig er hér yfirlit yfir tímasetningar sem henta vel fyrir slíkar guðsþjónustur.
|
GuðsþjónustanAuðvelt er að gera litla hluti til þess að draga náttúruna, loftslagsmál, réttlæti og umhverfisvernd inn í guðsþjónustuna. Þar má nefna bænir í guðsþjónustunni, að prédika út frá ritningartextum sem snerta náttúruna og fjalla um umhverfisvandann í prédikuninni. Eins er hægt að vera með þemaguðsþjónustur þar sem ákveðið málefni tengt náttúrunni fær mikið rými og það færi jafnvel vel á því að safna fyrir hjálparstarfi sem tengist því málefni.
|
Hvenær og hvernig
|
HAgnýt atriði og hugmyndir fyrir náttúruguðsþjónustu
|
|
Blóm og grænt
Nýtið endilega villt blóm, lyng, fjalldrapa eða birkikvisti og setjið í sultukrukkur með vatni í, gott er að setja smá möl í botninn á krukkunum svo að þær velti ekki ef það er vindur úti. Sáið karsa í skreyttar fernur eða krukkur í sunnudagaskólanum eða barnastarfinu í vikunni fyrir messuna. Hann vex hratt og krakkarnir hafa gaman af því. Þetta getur verið tækfæri til að ræða um lífið og gróandann í prédikuninni. Þegar karsinn er 4-5 daga gamall er komin ágætis lengd á hann og hægt að nota hann ofan á brauð eða í salat. Þú þarft aðeins karsafræ, þau er hægt að fá í blómabúðum, fairtrade bómull eða mold, og ílát. Fínt er að nota fernur eða krukkur. Notið fallega hluti úr náttúrunni, til dæmis steina, köngla, greinar, rekavið o.s.frv. til að skreyta altarið. Íhugið hvernig þið gætuð nýtt þessa hluti í prédikuninni. |
Plantið loftslagstré
Plantið reynitré til merkis um hve mikilvæg tré eru okkur. Reynitré eru harðgerð og vaxa um allt land. Hægt er að koma aftur að trénu að ári og leyfa því að vera tákn um umhverfisstarf safnaðarins sem slær rót, lifir og vex. Ef messað er í kirkju er hægt að enda guðsþjónustuna á því að fara út og planta tré við kirkjuna. Munið að skipuleggja þetta vel með kirkjuþjónum, sóknarnefnd eða öðrum sem koma að messunni. |
Grafið upp plastpoka
Við hugsum ekki um það sem við sjáum ekki – settu upp smá leikþátt í prédikuninni þar sem þú grefur upp plastpoka eða annað rusl sem ógnar lífríki jarðar, þetta er táknrænt fyrir að við viljum ekki lengur láta eins og við sjáum ekki að jörðinni stendur ógn af lífsstíl okkar og neyslu. Þið þurfið þá að mæta tímanlega á messustaðinn, eða fara þangað daginn áður til að grafa ruslið og undirbúa gjörninginn. Hér passar að nota syndajátninguna sem nefnir mengun jarðar. Munið að skila ruslinu í endurvinnslu eftir messu. |
Samskot
Safnið endilega fé fyrir samtök sem vinna að umhverfismálum eða hjálparstarfi á svæðum sem verða illa úti vegna loftslagsbreytinga. Eins væri hægt að hafa samband við Hjálparstarf kirkjunnar og heyra hvort þau séu að vinna að einhverjum verkefnum sem tengjast umhverfinu sem hægt er að styrkja sérstaklega. Takið það fram í auglýsingum að safnað sé fyrir þessu málefni í messunni. Hægt er að láta körfu ganga og safna í hana, eða hafa bauk sem fólk getur sett í þegar því hentar. Það hefur gefist vel að vera með samskot sem hluta af bænagöngu þegar kemur að almennu kirkjubæninni, þá er boðið upp á nokkrar bænastöðvar og fólk getur staðið upp, kveikt á kerti, skrifað bæn á miða og sett í bænakrukku, dregið biblíuvers og gefið í söfnunina. |