Loftslagspílagrímar
  • Loftslagspílagrímar
    • Hvernig gerum við þetta
    • Skila kílómetrum
  • Handbók um umhverfisstarf
    • Umhverfisstefna og aðgerðaráætlun
    • Verkfæri fyrir kirkjur >
      • Hvað hafa kirkjur gert?
      • Græn skref Umhverfisstofnunar
      • Innkaup, neysla og sorp.
      • Kirkjukaffi og aðrar uppákomur
      • Hvenær og hvernig ætti að hafa náttúrutengda guðsþjónustu?
      • Ritningarstaðir tengdir náttúrunni
      • Bænir og blessunarorð
      • Ýmis handrit að athöfnum og guðsþjónustum
      • Fyrir barnastarfið
      • Fræðsluefni og hugmyndir
    • Guðfræði
  • Grænn söfnuður
    • Regnbogabæn á föstunni
    • Heimsmarkmiðin og kristin trú
    • Tímabil sköpunarverksins
Umhverfisstefna & Aðgerðaráætlun

HANDBÓK UM UMHVERFISSTARF:

​Hvenær og hvernig ætti að hafa náttúrutengda guðsþjónustu?​

Verkfæri fyrir kirkjur
Guðfræði
​

Minnst einu sinni á ári ætti hver söfnuður að messa undir berum himni.

Hér er að finna hagnýtar upplýsingar fyrir skipulagningu útiguðsþjónustu eða þemaguðsþjónustu þar sem náttúran er í lykilhlutverki. Einnig er hér yfirlit yfir tímasetningar sem henta vel fyrir slíkar guðsþjónustur.

Guðsþjónustan

Auðvelt er að gera litla hluti til þess að draga náttúruna, loftslagsmál, réttlæti og umhverfisvernd inn í guðsþjónustuna. Þar má nefna bænir í guðsþjónustunni, að prédika út frá ritningartextum sem snerta náttúruna og fjalla um umhverfisvandann í prédikuninni. Eins er hægt að vera með þemaguðsþjónustur þar sem ákveðið málefni tengt náttúrunni fær mikið rými og það færi jafnvel vel á því að safna fyrir hjálparstarfi sem tengist því málefni.  

Hvenær og hvernig

Ef að ætlunin er að vera með þemaguðsþjónustu tengda náttúrunni eða umhverfismálum myndi passa að tengja hana við atburði í náttúrunni eða samfélaginu. Hér eru nokkrar dagsetningar sem hægt er að hafa til hliðsjónar þegar valin er tímasetning fyrir messur tengdar umhverfi og náttúru:

Vor og sumar

Vorjafndægri, 19-21. mars
Við erum hluti af náttúrunni og upplifum breytingar árstíðanna. Kirkjan getur hjálpað samfélaginu að finna tengslin við jörðina og lífið með þema guðsþjónustum þar sem lögð er áhersla á að við séum hluti af náttúrunni.
 
Alþjóðlegur dagur skóga 21. mars
Hægt væri að skipuleggja viðburð með skógræktarfélaginu sem starfar innan sóknarinnar, fá kynningu eða gera samkomulag um skógrækt á jörð prestsetursins ef við á.
 
Alþjóðlegur dagur vatns 22. mars
Ef dagurinn hittir á sunnudag væri við hæfi að gera því skil í guðsþjónustunni á einhvern máta.
 
Sumardagurinn fyrsti, 19.- 25. apríl
Þennan dag var boðið upp á gæludýrablessun í Guðríðarkirkju í nokkur ár, það var vel sótt og mæltist vel fyrir í nærsamfélaginu. Formið að stundinni má finna hér að neðan.
 
Jarðardagurinn (Earth Day) 22. apríl
Á vefsíðu jarðardagsins, www.earthday.org, er hægt að skrá viðburði. Kirkjur á Íslandi sem hafa verið með umhverfistengdar guðsþjónustur á jarðardaginn hafa skráð viðburðinn en það er mikilvægt tæki til að sýna þátttöku og áhuga kirkna á málefninu. Nýtið daginn endilega til að standa að helgihaldi eða uppákomum.
 
Dagur umhverfisins 25. apríl
Á Íslandi er haldið upp á dag umhverfisins þennan dag. Hægt væri að bjóða upp á fræðsluerindi og spjall í kirkjukaffinu eftir messu eða tengja daginn inn í barnastarf kirkjunnar.

Sunnudagar eftir þrenningarhátíð
Það passar vel að tengja græna litinn í kirkjuárinu við gróandann, vorið og sumarið. Yfir sumarmánuðina er um að gera að skipuleggja útiguðsþjónustur, úti í skógi, uppi á fjalli, við kirkjuna, á grænum svæðum í bænum, í fjörunni og nota sálma og ritningartexta tengda sköpuninni.
 
Alþjóðlegur dagur umhverfisins, 7. júní
Hvert ár hefur dagurinn nýtt þema, á vefsíðu dagsins, http://worldenvironmentday.global/, má sjá hvert þemað er í ár og finna leiðir til að tengja það inn í prédikun, boðun og bænir dagsins.
 
Sumarsólstöður, 20.-22. júní
Hefðirnar okkar og helgihald eiga djúp tengsl við gang náttúrunnar. Leitum leiða til að byggja brú til upprunans. Það væri spennandi að bjóða upp á útiguðsþjónustu þennan dag og leitast við að efla tengsl okkar við sköpunarverkið.
​Ef þið ætlið að messa í tengslum við t.d. jarðardaginn eða dag umhverfisins er gott að hafa í huga að deginum er líklega fagnað á einhverja vegu í samfélaginu, allavegana í skólum og leikskólum. Hafðu samband við aðila sem vinna að dagskrá fyrir þennan dag í þínu samfélagi og reyndu að koma á samvinnu. 

Haust og Vetur

Tímabil sköpunarverksins 1. september – 4. október
Frá 2007 hafa kirkjur um allan heim tekið þátt í verkefninu Tímabil sköpunarverksins, Season of Creation, sem varir frá 1. september til 4. október. Á þessum tíma eru kirkjur hvattar til að stunda umhverfisstarf og tileinka guðsþjónustur og boðun kirkjunnar náttúrunni, loftslagsbreytingum og umhverfisvernd. Þjóðkirkjan tók fyrst þátt í verkefninu árið 2017 en hugmyndir og guðsþjónustuefni úr þessari handbók geta komið að gagni við undirbúning tímabilsins í kirkjunni ykkar.

Plastlaus september
Hvernig getur kirkjan tekið þátt í því verkefni og stutt samfélagið í því að draga úr plastsóun? Væri hægt að fara út og plokka eftir kirkjukaffi? Standa að fræðslu eða bjóða upp á námskeið?
 
Töðugjöld, haustþakkarhátíð, uppskerumessa
Nokkrir söfnuðir hér á landi hafa staðið að uppskerumessum þar sem fólk kemur með hluta af sinni uppskeru og býður til sölu eða til notkunar í safnaðarstarfinu. Í söfnuði í Noregi er hefð að halda uppboð í lok uppskerumessu og safna fyrir góðu málefni, þá kemur fólk með ýmislegt sem það hefur ræktað eða unnið sjálft, brauð, sultur, reyktan fisk, grænmeti, kjöt, pestó, og gefur það til að styrkja málefnið sem verið er að safna fyrir. Í messunni sjálfri er uppskeran borin að altarinu og Guði þakkað fyrir gjafir jarðar. Hér gefst tækifæri til að tengja fólk við sköpunarverkið og almættið í gegnum gjafirnar sem við þiggjum.
 
Dagur íslenskrar náttúru, 16. september
Tilvalið væri að bjóða til útiguðsþjónustu þennan dag, jafnvel í góðu berjalandi.
 
Haustjafndægri, 21.-24. september
Af ástæðum sem hafa verið nefndar áður passar vel að vera með náttúrutengda guðsþjónustu á þessum tíma.
 
Dagur Frans frá Assísí 4. október
Heilagur Frans er verndardýrlingur náttúrunnar. Þrátt fyrir að við séum ekki kaþólsk má finna innblástur í lífi dýrlinganna og þau sýna okkur að við getum gert ótrúlega hluti með lífinu okkar þegar við leyfum Guði að slá rót og vaxa í okkur. Að tileinka Frans og boðun hans messuna þennan dag væri við hæfi.
 
Vetrarsólstöður 20.-23. desember
Án þess að skyggja á jólahelgihaldið þá væri tilefni til að vera með látlausa athöfn til að minna okkur á takt náttúrunnar og hlutverk okkar í þessu stóra sköpunarverki í tengslum við sólstöðurnar.

Picture

HAgnýt atriði og hugmyndir fyrir náttúruguðsþjónustu

​Gefið börnum hlutverk í guðsþjónustunni. Bjóðið sérstaklega hópi úr sunnudagaskólanum, barnastarfinu, unglingastarfinu eða fermingarfræðslunni og gefið þeim hlutverk. Biðjið börnin um að bjóða ömmu og afa til guðsþjónustu.

Hugsið út í
  • Birtuskilyrði
  • Veðurspána, takið fram í auglýsingu ef messan verður færð inn vegna veðurs.
  • Aðgengi fyrir hjólastóla.
  • Hvernig/hvort fólk eigi að geta sest, ef til vill er hægt að auglýsa að fólk eigi að taka með sér stól eða eitthvað til að sitja á.

​Staður: Við mælum með því að messað sé úti.
  • Við kirkjuna
  • Út i skógi
  • Uppi á fjalli eða við fjallsrætur
  • Við jökul
  • Við haf, stöðuvatn eða á.
En það er alveg hægt að hafa messuna inni líka.

Fyrir guðsþjónustuna
  • Börnin, ömmur og afar týna blóm, annaðhvort í garðinum heima eða úti í náttúrunni til að skreyta altarið.
  • Tvö börn með ömmum og öfum sjá um að útdeila messuskrá og sálmaheftum til þátttakenda.


Picture
Altarið og skreytingar
Hér er hægt að vera skapandi og við mælum með því að starfsfólk safnaðarins og aðrir sem koma að messunni ræði það hvernig þau ætli að hafa altarið. Er eitthvað til staðar á messustaðnum sem hægt er að nota, flatur steinn, hlaðinn veggur? Hægt er að nota útilegu borð eða búkka og timburplötu. Gætið þó að því að altarið líti vel út og hæfi tilefninu. Gæti barna- eða unglingastarfið aðstoðað við að smíða altari?
 
Steinflísar henta vel hvort sem er inni í kirkjunni eða úti í náttúrunni til skreytingar, hægt er að raða blómum eða kertum á þær.

Blóm og grænt
Nýtið endilega villt blóm, lyng, fjalldrapa eða birkikvisti og setjið í sultukrukkur með vatni í, gott er að setja smá möl í botninn á krukkunum svo að þær velti ekki ef það er vindur úti.
 
Sáið karsa í skreyttar fernur eða krukkur í sunnudagaskólanum eða barnastarfinu í vikunni fyrir messuna. Hann vex hratt og krakkarnir hafa gaman af því. Þetta getur verið tækfæri til að ræða um lífið og gróandann í prédikuninni. Þegar karsinn er 4-5 daga gamall er komin ágætis lengd á hann og hægt að nota hann ofan á brauð eða í salat.
Þú þarft aðeins karsafræ, þau er hægt að fá í blómabúðum, fairtrade bómull eða mold, og ílát. Fínt er að nota fernur eða krukkur.
 
Notið fallega hluti úr náttúrunni, til dæmis steina, köngla, greinar, rekavið o.s.frv. til að skreyta altarið. Íhugið hvernig þið gætuð nýtt þessa hluti í prédikuninni.
Picture

Picture
Plantið loftslagstré
Plantið reynitré til merkis um hve mikilvæg tré eru okkur. Reynitré eru harðgerð og vaxa um allt land. Hægt er að koma aftur að trénu að ári og leyfa því að vera tákn um umhverfisstarf safnaðarins sem slær rót, lifir og vex. Ef messað er í kirkju er hægt að enda guðsþjónustuna á því að fara út og planta tré við kirkjuna. Munið að skipuleggja þetta vel með kirkjuþjónum, sóknarnefnd eða öðrum sem koma að messunni.

Picture
Grafið upp plastpoka
Við hugsum ekki um það sem við sjáum ekki – settu upp smá leikþátt í prédikuninni þar sem þú grefur upp plastpoka eða annað rusl sem ógnar lífríki jarðar, þetta er táknrænt fyrir að við viljum ekki lengur láta eins og við sjáum ekki að jörðinni stendur ógn af lífsstíl okkar og neyslu. Þið þurfið þá að mæta tímanlega á messustaðinn, eða fara þangað daginn áður til að grafa ruslið og undirbúa gjörninginn. Hér passar að nota syndajátninguna sem nefnir mengun jarðar. Munið að skila ruslinu í endurvinnslu eftir messu.

​Samskot
Safnið endilega fé fyrir samtök sem vinna að umhverfismálum eða hjálparstarfi á svæðum sem verða illa úti vegna loftslagsbreytinga. Eins væri hægt að hafa samband við Hjálparstarf kirkjunnar og heyra hvort þau séu að vinna að einhverjum verkefnum sem tengjast umhverfinu sem hægt er að styrkja sérstaklega.
Takið það fram í auglýsingum að safnað sé fyrir þessu málefni í messunni.
Hægt er að láta körfu ganga og safna í hana, eða hafa bauk sem fólk getur sett í þegar því hentar. Það hefur gefist vel að vera með samskot sem hluta af bænagöngu þegar kemur að almennu kirkjubæninni, þá er boðið upp á nokkrar bænastöðvar og fólk getur staðið upp, kveikt á kerti, skrifað bæn á miða og sett í bænakrukku, dregið biblíuvers og gefið í söfnunina.
Picture

Skoða næst:

Til baka í efnisyfirlit
Ritningarstaðir tengdir náttúrunni
Bænir og Blessunarorð
Ýmis handrit að athöfnum og guðsþjónustum
Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Loftslagspílagrímar
    • Hvernig gerum við þetta
    • Skila kílómetrum
  • Handbók um umhverfisstarf
    • Umhverfisstefna og aðgerðaráætlun
    • Verkfæri fyrir kirkjur >
      • Hvað hafa kirkjur gert?
      • Græn skref Umhverfisstofnunar
      • Innkaup, neysla og sorp.
      • Kirkjukaffi og aðrar uppákomur
      • Hvenær og hvernig ætti að hafa náttúrutengda guðsþjónustu?
      • Ritningarstaðir tengdir náttúrunni
      • Bænir og blessunarorð
      • Ýmis handrit að athöfnum og guðsþjónustum
      • Fyrir barnastarfið
      • Fræðsluefni og hugmyndir
    • Guðfræði
  • Grænn söfnuður
    • Regnbogabæn á föstunni
    • Heimsmarkmiðin og kristin trú
    • Tímabil sköpunarverksins